154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:00]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir mjög áhugaverða ræðu. Hann kemur hér inn á risamál sem skiptir okkur gríðarlegu máli, bæði núna og til lengri tíma. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að þetta er leiðin sem við munum fara og erum komin á, þ.e. að skipta út þessum jarðefnaeldsneyti. Ég staldraði aðeins við þegar hann fór að tala um að færa eða mörkin frá 2030 til 2025, einfaldlega vegna þess að nú bý ég t.d. úti á landi, í Norðvesturkjördæmi, ferðast þar mikið og jafnvel vestur á firði ansi oft og ég væri alveg tilbúinn í það að taka undir tillögu með hv. þingmanni um að færa þetta til 2025 ef ég gæti tryggt að ég kæmist á milli staða 2025. Eins og kom áðan fram er þetta net hleðslustöðva ekki orðið nægjanlegt. Það er ekki orðið nægilega þéttriðið til þess að þetta sé gerlegt í dag. Þetta er stóra vandamálið og þetta er það sem maður heyrir fólk í mínu kjördæmi, sem langar að fara á rafmagnsbíl, tala um, að þó að þróunin sé klárlega í rétta átt, að batteríin séu að stækka og verða öflugri, þá vanti svolítið upp á þarna. Ég held að það sé eitthvað sem við gætum tekið okkur saman um að berjast fyrir, að við fjölguðum í þessu neti hraðhleðslustöðva og reyndum að ýta því áfram og færum svo í að pressa á hitt markmiðið.